Nílla (Nílsína) Larsen Einarsdóttir

Yogakennari

Nílsína sem er ávallt kölluð Nílla, er að hefja sín fyrstu skref við jógakennslu eftir að hafa verið að læra jógafræði síðustu tvö ár. Nílla er með menntun í Hatha jóga frá Jógasetrinu hjá Auði Bjarnadóttur, Yin jóga og Restorative jóga frá Karma jógastúdíó hjá Guðrúnu Reynisdóttur, Nidra og jógaþerapíu frá Amrit Yoga Institute hjá Kamini Desai, ásamt því að læra hvernig er hægt að styðjast við áfallamiðaðar nálganir í gegnum jóga hjá Karma jógastúdíó. Nílla er með meistaragráðu í uppeldis-og menntunarfræðum og hefur starfað á vettvangi frítímans til fjölda ára, við að stuðla að og skapa fjölbreytt tækifæri til að virkja og valdefla ungt fólk. Hún hefur rannsakað hvernig hægt er að efla félagsfærni í gegnum leiklist og hvaða þættir það eru sem skapa seiglu hjá fólki í erfiðum aðstæðum.

Sjálf hef ég iðkað jóga til fjölda ára og upplifað á eigin skinni hversu magnað jóga getur verið til þess að takast á við tilveruna. Ég legg áherslu á hæglæti, mildi og mýkt í mínum tímum til þess að vinna djúpt með taugakerfið, tengjast andardrættinum og slaka á inn í það sem er. Ég er afskaplega áhugasöm um hvernig hægt er að nota jóga sem verkfæri og aðferð til þess að vinna bug á streitu, þreytu, áföllum og kvíða, í þeim tilgangi að efla vellíðan. Tímarnir hefjast á samhæfingu andardráttar við hægar hreyfingar, mjúkar jógastöður taka þá við og að lokum er tekinn drjúgur tími til slökunar og hugleiðslu. Ég legg áherslu á að njóta en ekki að þjóta – því þannig náum við betri tengslum við okkar eigið sjálf.