fbpx

Yoga og vefjagigt

Ég hef stundað jóga í meira en tuttugu ár. Lengi vel lagði ég meiri áherslu á aðra hreyfingu en hafði jóga meira til hliðar. Tók eitt og eitt jóganámskeið og fann að það gerði mér gott. En aðallega lyfti ég lóðum, stundaði crossfitt og hamaðist í spinning. Fyrir u.þ.b. 10 árum, fékk ég svo miklar harðsperrur eftir crossfit æfingu, að mér fannst ég ekki geta hreyft mig. Ég var vön því að vera yfirleitt miklu lengur að ná mér eftir æfingar heldur en aðrir og  hélt að það væri vegna þess að ég væri ekki nógu dugleg að hreyfa harðsperrurnar úr mér og hamaðist því enn meira. En í þetta sinn urðu verkirnir verri og verri eftir því sem ég hreyfði mig meira. Ég ákvað að kíkja til læknis og athuga hvort það gæti eitthvað verið að mér. Hann minnti mig á að ég hefði verið greind með vefjagigt nokkrum árum áður og að það sem amaði að mér væri vefjagigtarkast. Ég mundi að mér hafði fundist  svo óþægilegt og leiðinlegt að  greinast með vefjagigt að ég kaus að hlusta ekki á það! En nú voru verkirnir það miklir að ég ákvað að ég yrði að horfast í augu við sjúkdóminn og gera eitthvað í mínum málum. Eftir töluverða leit, varð svarið á endanum jóga. Jógaástundun gerði kraftaverk fyrir mig og ég er óþreytandi að bera út fagnaðarerindið.

Einkenni vefjagigtar eru mismunandi. Mín lýsa sér yfirleitt sem útbreiddir verkir um  stoðkerfið frá vöðvum, liðum og svokölluðum triggerpunktum. Sérstaklega í vinstri hlið líkamans. Stirðleiki getur gert vart við sig, einkum snemma dags og óútskýrðir verkir eru líka áberandi. Þegar ég er sem verst, þarf ég líka að berjast við svefntruflanir, streitu, svima, meltingartruflanir og mikla þreytu. Einkenni vefjagigtar almennt eru misjöfn og persónubundin. Ég hef ákveðnar kenningar um ástæður þess að ég berst við vefjagigt en orsök vefjagigtar getur verið af ýmsum ástæðum. Þetta er viðurkenndur sjúkdómur sem ennþá er ólæknandi. Þeir sem þjást af vefjagigt, hafa ýmsa valkosti til þess að hjálpa sér að takast á við hana. Einn af þeim er jóga.

Hvernig getur jógaástundun hjálpað okkur að lifa með vefjagigt?

Öll þekkjum við að álag og stress gerir okkur veikari fyrir. Þeir sem þjást af vefjagigt fá auðveldlega verkjaköst þegar álag á taugakerfi verður of mikið. Það útskýrist af því að taugakerfi vefjagigtarsjúklinga er næmara heldur en annarra. Við skynjum verki fyrr og dýpra. Það er mannlegt að grípa til grunnöndunar þegar við tökumst á við sársauka og við gerum það gjarnan. En það gerir bara illt verra og við spennumst upp í öxlum, efrihluta baks og hálsi. Á því svæði eru einmitt margir triggerpunktar staðsettir. Í jóga lærum við að tileinka okkur djúpöndun. Pranayama öndun er öndunartækni jóga sem hefur mjög slakandi áhrif á taugakerfið og hjálpar okkur þannig við að minnka áhrif verkja í líkamanum. Gott er að byrja hvern jógatíma á tíu mínútna öndunaræfingu. Þannig er líkaminn betur undirbúinn fyrir jógastöðurnar sem á eftir koma. Oft er nauðsynlegt að hvíla sig, en oftar gerir mjúk hreyfing meira gagn. Jóga styrkir vöðva líkamans og regluleg ástundun þess styrkir þannig stoðkerfið sem er nauðsynlegt til að halda sér heilbrigðum.

Deila: