fbpx

Hlustarðu á líkamann þinn?

Hefurðu einhvern tíman tekið eftir því hvaða áhrif streita hefur á þig andlega og líkamlega? Ég var að taka eftir svo greinilega núna og mér finnst það magnað.

Síðustu kannski 3-4 ár, jafnvel lengur, hef ég verið í frekar miklu streituástandi án þess þó að átta mig almennilega á því. Ýmislegt gekk á í lífinu og streitan byrjaði að safnast upp í líkamanum á mjög lúmskan hátt. Ég var að vinna við það sem ég elskaði að gera, á endalausum ferðalögum og lífið bara nokkuð gott. Eins og það er dásamlegt og mikil forréttindi að fá að vinna við það sem maður elskar að gera og hefur endalausa ástríðu fyrir þá getur það verið mjög lýjandi. Þeytingur á milli staða alla daga vikunnar, ég var að kenna stundum yfir 15 yogatíma á viku á 4-5 stöðum, og svo mikið fjárhagslegt óöryggi sem bætist ofaná það. Þetta kom allt saman í bakið á mér og ég fór að finna fyrir miklum kvíða, rosalega miklu orkuleysi, endalausar áhyggjur, stress og vefjagigt sem fylgdi svo í kjölfarið. Alltaf samt elskaði ég að mæta á yogadýnuna og leiða hóp af fólki í gegnum þeirra yogaæfingu. Mér fannst kulnun vera bara eitthvað sem átti alls ekki við það sem ég var að ganga í gegnum. Ég elska vinnuna mína!

Einhvern vegin var ég búin að búa til rosalega mikið stress í kringum mína daglegu rútínu sem felst í því að vinna heima ( að reka fyrirtæki), viðra hundinn þrisvar á dag og kenna 2-3 yogatíma á dag. Ég gerði ekkert annað, hafði ekki tíma eða orku í neitt meira. Á einu ári tókst mér að keyra mig gjörsamlega út tvisvar sinnum og ég hafði ekkert svigrúm til að taka mér frí til að leyfa mér að ná upp orkunni minni aftur. Síðasta haust neyddist ég svo til að fara í veikindafrí þegar ég fór í stóra aðgerð á höfðinu. Ég gat ekki unnið og þurfti bara að einbeita mér að því að ná heilsunni minni aftur. Loksins tókst mér að vinda ofan af þessari streitu sem ég var búin að safna upp í nokkur ár. Loksins fann ég að ég átti daga þar sem var ekkert stress, enginn kvíði, áhyggjur eða vefjagigtareinkenni, og þeir dagar urðu fleiri og fleiri. Mér leið mjög vel, bæði líkamlega og andlega, þó svo að ég væri frekar slöpp eftir aðgerðina en ég var fljót að jafna mig eftir hana. Það var svo góð tilfinning að finna að mér hafði tekist að brjóta upp þessa skemmandi stress rútínu sem ég hafði búið mér til. Ég fór svo að kenna aftur þegar við máttum opna yogastúdíóið, fór sjálf í kröftuga yogatíma og gekk 188 km í janúar (sem er bara venjulegt göngulíf hundaeigandans). Öll þessi hreyfing gaf mér enn meiri orku og vellíðan og mér fannst ég geta gert allt. Gleði og hamingja og allar góðu tilfinningarnar komnar aftur til baka. 

Svo fyrir rúmlega viku síðan kom skellur, mjög mjög svo stressandi skellur. Alltíeinu fór allt í steik. Ég var á þeytingi útum allt, á fundum um hluti sem ég kann ekkert mikið á og líka að kenna yogatíma, reka fyrirtæki, fara í yoga sjálf og út að ganga með hundinn auðvitað. Allskonar áhyggjur, rosalega mikið stress, pirringur, sjálfsniðurrif, óöryggi og vefjagigtareinkenni helltust yfir mig aftur. Eftir nokkra daga í þessu ástandi var ég gjörsamlega búin, hafði enga orku, var með svima og leið mjög illa. Kannski er ég aðeins viðkvæmari núna þar sem ég er ennþá að jafna mig eftir aðgerðina en bara nokkrir daga af streitu og allt þetta neikvæða komið aftur, neikvæð munstur og neikvæðar hugsanir. Ég er að reyna að vanda mig að detta ekki niður í þessa holu aftur og viðkenni að ég er mjög hrædd um að fara þangað því ég veit ekki hvernig ég kemst þá uppúr henni aftur. Þetta er í fyrsta skipti sem ég finn svona ótrúlega skýrt hvað streita hefur rosalega slæm áhrif á mig og ég veit að það á við um svo marga, alls ekki bara mig. Hún hefur hrikaleg áhrif á heilsuna okkar og það getur verið mjög erfitt að vinna sig í burtu frá henni. Það er samt ekki fyrr en að við erum orðin meðvituð um ástandið að við getum farið að vinna í að laga það, að hugsa betur um okkur sjálf og reyna að snúa þessu við.

Við verðum að hlusta á líkamann okkar því hann lætur okkur vita þegar við þurfum að hægja á okkur og endurskoða hlutina. Hann lætur okkur vita löngu áður en allt fer í steik en við erum svo dugleg að ýta því öllu til hliða og halda bara áfram endalaust, þangað til líkaminn öskrar STOPP og stundum er það of seint þá getur tekið okkur mjög langan tíma að ná heilsu aftur.

Farðu vel með þig og mundi að þú þarft líka að slaka á og hvíla þig.

-Ása

Deila: