„Ég hef farið í jóga, það er ekki fyrir mig“ hef ég heyrt marga segja þegar ég segi þeim að ég sé jógakennari. Þegar ég spyr um hvernig jóga þeir hafi farið í segja flestir „bara jóga„. Það er ekki nema von að fólk átti sig ekki á öllum þeim aragrúa sem til er af jógaútfærslum þetta er nefnilega frumskógur.
Jóga er fyrir alla, en það eru ekki allir sem finna sig í jóga. En ef þig langar til að gefa jóga séns er mikilvægt að leyfa sér að prófa nokkrum sinnum. Kannski nokkrar týpur af jóga og helst hjá ólíkum kennurum. Hvernig jóga er miðlað áfram hefur mikið að segja hvernig þú upplifir jógatímann. En það fíla ekki allir jóga – og það er allt í lagi. En allir þurfa að hreyfa sig og finna hjá sér kyrrð og ró.
Hér á Íslandi er úrval á jógatímum sífellt að aukast og mikil fjölbreytni komin í íslenska jógaflóru. Til þess að hjálpa þér að átta þig á hvaða jógaform hentar þér best hef ég tekið saman nokkrar helstu jógastefnurnar og hvað einkennir þær. Ég hef eflaust ekki nefnt allt það sem er í boði – endilega bættu við listann í kommentum.
Hata jóga er grunnurinn í nánast öllu jóga sem stundað er hér á landi. Jógatímar hafa svo ýmis nöfn sem lýsa misvel hvernig jógatíminn er. Stundum þarf maður hreinlega að mæta í tíma og kynna sér kennsluaðferðirnar og ekki síst kennarann sjálfan. Þú gætir þurft að mæta í nokkra jógatíma til að finna þinn stíl og þinn kennara. En hér eru helstu jógastefnurnar sem kenndar eru á Íslandi.
Vinyasa hefðin byggir á að allar jógastöður séu gerðar útfrá öndun. Vinyasa er gjarnan kallað jógaflæði á íslensku. Jógastöðurnar eru þannig flæðandi frá einni stöðu til annarrar. Fyrir suma getur Vinyasa virkað dálítið eins og dans með tónlist (tónlist er þó ekki alltaf spiluð). Margar jógastefnur byggja á Vinyasa bæði með föstum jógaseríum og breytilegum. Getur verið bæði létt og erfitt allt eftir kennara og áherslum.
Asthanga hefðin byggir á seríum sem er endurtekin í hverjum tíma. Jógaæfingarnar eru gerðar með talningu á öndun en ekki svo mikið lagt upp úr líkamsbeitingunni sjálfri (alignment). Hefðbundið Asthanga þykir krefjandi fyrir líkama flestra.
Iyengar hefðin byggir að miklu leiti á að aðlaga jógastöðuna að líkama fólks og þeim er oft haldið í dágóðan tíma. Iyengar er þekktast fyrir notkun sína á jógabúnaði til þess að allir geti unnið á réttan hátt í hverri jógastöðu. Iyengarkennarar eru oft mjög úrræðagóðir fyrir nemendur að finna bestu lausnina út frá líkamsgerð/vandamálum. Restorative (hvílandi) jóga er eitt af jógaafbrigðum Iyengar hefðarinnar.
Kundalini hefðin er að miklu leyti byggð á öndun, möntrusöng og hugleiðslu, minni áhersla er á líkamlega iðkun þó að hún sé höfð með að einhverju leyti.
Hvaða jóga á ég að velja?
Hlýtt jóga, Heitt jóga, Mjúkt jóga, Power jóga, Kraftjóga, Jógaflæði, Barkan og Baptiste eru öll gerðir af jóga sem oftast byggja á Vinyasa eða jógaflæði. Mikið af því jógaflæði sem er vinsælt að kenna á Íslandi eru fyrirfram ákveðnar seríur (oftast kenndar við upphafsmenn seríunnar). Erfiðleikastigin eru mismunandi og fer mikið eftir kennurum hvernig nemendum er sinnt í tímunum og hvort jógabúnaður er notaður. Mörg fleiri nöfn eru yfir jógatímana og stundum er notast við tölur 1 – 3 sem gefur til kynna erfiðleikastig tímans. Jógaflæði getur stundum verið dálítið erfitt fyrir byrjendur vegna þess að oft er farið hratt yfir – nema tíminn sé sérstaklega hugsaður sem byrjendatími.
Absalute og Bikram sem er byggt á föstum jógaseríum sem eru kenndar í heitum sölum oftast án eða með lítið af jógabúnaði. Oft krefjandi vegna hitans.
Hata jóga og Iyengar jóga eru jógaform sem byggja að mestu á að kenna jógastöður en minna er lagt upp úr að flæða frá einni stöðu til annarrar. Það er þó mjög misjafnt eftir reynslu kennarans. Stundum er bæði Vinyasa og Hata/Iyengar jóga kennt í sama tímanum. Þá er Vinyasa (sólarhylling er dæmigerð Vinyasa) er notað til að auka blóðflæði og fá hita í líkamann og svo unnið með stöður á eftir. Sjaldan er um að ræða staðlaðar jógaseríur og yfirleitt ekki kennt í hituðum sal.
Yin, Restorative, Nidra, Tónheilun, Kyrrðarjóga og djúpslökun eru dæmi um jógaform sem leggja uppúr djúpri slökun með engri eða lítilli líkamlegri hreyfingu. Markmiðið er að ná góðri slökun og ró í líkama og huga. Stundum er notuð tónlist eða hljóðfæri í tímunum. Sum jógaformin – eins og Restorative jóga leggja uppúr að nota jógabúnað til þess að þá náir að slaka sem best í þeirri stöðu sem unnið er með. Yin jóga er þó dálítið ólíkt þar sem það getur verið mjög líkamlega og andlega krefjandi vegna þess að þar þarf iðkandinn að vinna í djúpum teygjum (unnið í bandvef líkamans) í langan tíma. Nánast allar stöðurnar í Yin jóga eru gerðar liggjandi eða nálægt gólfi og hver og einn ræður erfiðleikastiginu sjálfur. Flestir ættu að geta mætt í þessa tíma án þess að vera búnir að stunda jóga áður. Þó getur það verið krefjandi að liggja kyrr í lengri tíma ef þú ert ekki vön/vanur því – en það venst.
Einnig má finna ýmis afbrigði af jóga sem eru að mestu upprunnin úr Kundalini. Hægt er að taka þátt í athöfnum þar sem farið er með möntrur, dansað/sungið og ómað og stundum drukkið kakó.
Já listinn yfir jóga og afbrygði jóga er langur og hér fyrir neðan er skemmtileg flæðirit með allskonar jóga –
Gangi þér vel að finna þitt jóga