fbpx

Áramótakveðja

Kæru vinir,

Núna er 2020 loksins að verða búið og við óskum þess innilega að nýja árið muni færa okkur öllum gleði, hamingju, góða heilsu og að fólk og fyrirtæki fái að blómstra og vaxa.

Þetta er ár er búið að vera erfitt fyrir marga bæði persónulega og rekstrarlega fyrir þau sem standa í fyrirtækjarekstri. Við erum þakklátar fyrir að vera ennþá hér sem hefði líklegast ekki gerst nema með stuðningi ykkar sem iðkið hjá okkur yoga mánuð eftir mánuð.

Fyrir lítið yogastúdíó sem átti 1 árs afmæli 1.júní var þetta ár alveg einstaklega erfitt. Í fyrri stóru bylgjunni á árinu lokuðum við alveg og frystum öll kort en til að geta boðið okkar fólki áfram uppá yoga í einhverri mynd tókum við upp yfir 20 yogatíma sem við settum á Youtube og voru opnir öllum. Yoga&Heilsa var svo lokað í rúmlega 2 og hálfan mánuð og engar tekjur komu inn á þeim tíma. Þar sem að við höfðum ekki verið í rekstri allt árið áður þá náðum við ekki uppí þá lágmarks upphæð sem fyrirtæki þurftu að hafa árið 2019 til að geta sótt um lokunarstyrk. En við létum það ekki á okkur fá og héldum áfram.

Þvílík gleði þegar við máttum svo opna aftur og taka á móti ykkur í hlýlega salnum okkar. Sumarið var frábært og við alltaf fullar tilhlökkunar að hitta fólkið okkar og leiða það áfram í yogaæfingu dagsins. Við fórum svo inní haustið með ykkur fullar af hugmyndum og krafti og ætluðum sko að taka þennan vetur með yogatrompi með leiddum tímum og allskonar skemmtilegum námskeiðum og vinnustofum. Það voru greinilega fleiri með sama plan og við og það var frábær mæting og dásamlega orka í hverjum einasta tíma. Takk fyrir það!!

Svo kom október og við þurftum að loka í 2 vikur og við öll neyddumst til að læra á Zoom forritið og saman gerðum við okkar besta til að gera saman yoga í gegnum netið. Það getur verið flókið og stressandi að læra á nýja hluti og vilja gera allt 100% fyrir aðra og klúðra svo einhverju í leiðinni og það má því segja að Zoom-yogað hafi valdið smá kvíða hjá sumum okkar.

Eftir 2 vikur máttum við svo opna aftur en þá með mjög ströngum sóttvarnarreglum og við settum upp spritt-stöðvar um allt húsið og við vorum alveg einstaklega þakklátar fyrir hvað þið voruð dugleg að mæta og passa uppá með okkur að þetta mundi allt ganga upp. Við höfum líka skilning á að það voru ekki allir sem sáu fært að mæta á staðinn til að iðka sitt yoga. En þessi opnun entist ekki lengi og við þurftum að loka aftur um 2 vikum seinna.

Við tókum þá ákvörðun að færa okkur aftur yfir á Zoom og streyma yogatímum í gegnum netið því okkur finnst mikilvægt að við getum öll haldið áfram að hlúa að heilsunni þó við megum ekki hittast og iðka yoga í sama rýminu. Einnig sáum við framá að ef við hefðum lokað alveg og aftur fryst öll kort þá væri mjög líklegt að litla yogstúdíóið okkar mundi ekki lifa það af. Við erum óendanlega þakklátar fyrir þau ykkar sem vilduð halda áfram að greiða fyrir mánaðarlegu áskriftina ykkar og fá þá aðgang að yogatímunum í gegnum netið. Án ykkar hefðum við þurft að loka og læsa. Það er ykkur að þakka að við getum haldið áfram og með ykkar stuðningi höfum við enn meiri kraft til að gera meira og gera betur. Á sama tíma treystum við á að það að við gætum sótt um lokunarstyrk sem gæti þá hjálpað okkur að komast í gegnum þetta erfiða ár þar sem við værum bara að fá inn hluta af þeim tekjum sem við gætum verið að fá. Það kom svo í ljós að vegna þess að við ákváðum að halda áfram en ekki loka alveg að þá uppfyllum við ekki þau skilyrði sem þarf til að geta fengið þann styrk. Þetta var ákveðinn skellur og mikil vonbrigði en við erum mjög sáttar við okkar ákvörðun um að halda yogasamfélaginu okkar lifandi og hitta ykkur í gegnum tölvuskjáinn nokkrum sinnum í viku og við munum halda því áfram þangað til við megum taka á móti ykkur í persónu sem verður vonandi sem fyrst.

Við trúum því að hreyfing, hugleiðsla og öndun skipti miklu máli á þessum krefjandi tímum. Góð andleg og líkamleg heilsa er það sem mun koma okkur sterkum í gegnum þetta tímabil. Það geta ekki allir farið út að hlaupa eða ganga á fjöll og veður og færð um hávetur á okkar fallegu eyju gera hlutina oft aðeins flóknari. Það er okkar skoðun að yogastúdíó ættu að fá að opna dyrnar fyrir sína viðskiptavini, með ströngum sóttvarnarreglum, þar sem fjarlægðarmörk eru, allir koma með sinn yogabúnað, spritta hendur fyrir og eftir tíma og eru ekki að nota neinn sameiginlegan búnað. Þangað til að það verður leyft þá höldum við áfram að gera okkar besta í að bjóða uppá leidda yogatíma og námskeið í gegnum netið heim í stofu til ykkar.

Nýtt ár kemur með nýja möguleika og við erum með fullt af spennandi hugmyndum sem okkur langar að framkvæma með ykkur. Á planinu fyrir 2021 eru allskonar spennandi námskeið og vinnustofur, yogaferð út á land, vinnustofur og yogakennara nám með erlendum gestakennurum og margt fleira. Með ykkur getum við leyft yogasamfélaginu okkar að vaxa og dafna með kærleika og gleði að leiðarljósi.

Kula er orð úr sanskrít og þýðir samfélag, ættbálkur, fjölskylda. Þið eruð okkar Kula og það eruð þið sem skapið fallegu og vinalegu orkuna sem við finnum öll þegar við mætum á dýnuna okkar í yogasalnum. 

Takk fyrir allar dásamlegu yogastundirnar á árinu sem er að líða. Við hlökkum mikið til að skapa með ykkur enn fleiri og enn betri stundir á nýju og enn betra ári.

Með endalausri ást og þakklæti

Áramótakveðja

Ása, Ásta &Bríet

search previous next tag category expand menu location phone mail time cart zoom edit close